Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 728. máls.

Þingskjal 1166  —  728. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku
sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl.,
með síðari breytingum (innleiðing EES-gerðar).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og/eða“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eða.
     b.      Í stað 3. málsl. 1. mgr. koma tveir málsliðir sem hljóða svo: Skal form og efni slíkra upprunaábyrgða vera í samræmi við ákvæði laga þessara og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB frá 23. apríl 2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EC og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/8/EB frá 11. febrúar 2004 um að auka samvinnslu raf- og varmaorku sem byggist á eftirspurn eftir notvarma á innri orkumarkaðinum og um breytingu á tilskipun 92/42/EBE. Form upprunaábyrgða skal staðfest af Orkustofnun.
     c.      Í stað orðanna „síðustu 3, 6 eða 12“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: síðustu tveggja til tólf.
    

2. gr.

    Í stað orðanna „tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/ 28/EB frá 23. apríl 2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EC.

3. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB frá 23. apríl 2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EC eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2011 19. desember 2011.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í iðnaðarráðuneytinu að höfðu samráði við Orkustofnun, Landsnet og Samorku. Í því eru lagðar til breytingar á lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. Tilgangur frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt ákvæði í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB, frá 23. apríl 2009, sem snýr að útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Nánar tiltekið er um að ræða ákvæði í 15. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/ 28/EB. Með tilskipuninni er hvatt til aukinnar notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og kemur hún í stað eldri tilskipana nr. 2001/77/EB og 2003/30/EC. Í tilskipun 2001/ 77/EB var m.a. kveðið á um upprunaábyrgðir og var sú tilskipun innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl.
    Þar sem vísað er til tilskipunar 2001/77/EB í lögum nr. 30/2008 þarf að breyta þeim ákvæðum laganna og vísa til hinnar nýju tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EC. Efnislega er ekki munur á þessum tveimur tilskipunum (2001/ 77/EB og 2009/28/EB) hvað varðar ákvæði um upprunaábyrgðir á raforku. Innleiðing 15. gr. tilskipunar 2009/28/EB er því ekki talin kalla á frekari breytingar á lögum nr. 30/2008.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB, frá 23. apríl 2009, um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EC, var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2011 19. desember 2011.
    Frumvarpið felur því í sér að lagt er til að lögum nr. 30/2008 verði breytt þannig að vísað er til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB í stað tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB. Að auki er um tvær minni háttar orðalagsbreytingar að ræða í frumvarpinu, sbr. athugasemdir við einstakar greinar.
    Verði frumvarpið að lögum er Landsneti hf. heimilt, á grundvelli laganna, að gefa út upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er hér á landi með endurnýjanlegum orkugjöfum með vísan til hinnar nýju tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB. Þar sem hin nýja tilskipun hefur öðlast gildi á Evrópska efnahagssvæðinu gera þeir erlendu aðilar sem hafa hug á að kaupa slíkar upprunaábyrgðir frá Íslandi kröfu um að upprunaábyrgðin sé í samræmi við ákvæði hinnar nýju tilskipunar og gefin út með vísan til hennar.
    Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á starfsemi Landsnets hf. við útgáfu upprunaábyrgða en jafnframt opna leið fyrir íslenska raforkuframleiðendur til að markaðssetja upprunavottorð á hinu Evrópska efnahagssvæði með tilvísun til hinnar nýju tilskipunar 2009/28/EB.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er lagt til að vísað verði til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/ 28/EB í stað tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB.
    Í núgildandi 1. mgr. 4. gr. laganna er gert ráð fyrir því að upprunaábyrgðir séu gefnar út skriflega og/eða á rafrænu formi. Lögð er til breyting á þessu ákvæði í þá veru að annaðhvort verði upprunaábyrgðir gefnar út skriflega eða á rafrænu formi. Er þetta gert til að koma í veg fyrir að upp geti komið tilvik þar sem tvær upprunaábyrgðir eru gildar samtímis (þ.e. bæði skrifleg og á rafrænu formi).
    Þá er lagt til að 1. mgr. 4. gr. verði breytt í þá veru að Orkustofnun staðfesti form upprunaábyrgða en ekki hverja og eina upprunaábyrgð. Eðlilegt er að slíkt samþykki fyrir formi upprunaábyrgða nægi þar sem Landsnet hf. sér samkvæmt lögunum um útgáfu upprunaábyrgðanna.
    Þá er lögð til breyting á þeim tíma sem upprunaábyrgðin nær til þannig að tímabilið sé ekki bundið við ákveðinn mánaðafjölda (3, 6 eða 12) heldur getur sá sem óskar eftir útgáfu upprunaábyrgðar valið um það til hversu margra mánaða hún tekur upp að 12 mánaða hámarki.

Um 2. gr.


    Með greininni er lagt til að vísað verði til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/ 28/EB í stað tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB.

Um 3. gr.


    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB, frá 23. apríl 2009, um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EC, var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2011 19. desember 2011. Með frumvarpinu er verið að innleiða ákvæði hennar í landslög.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2008,
um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum
orkugjöfum o.fl., með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er ætlunin að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/ EB, um útgáfu upprunaábyrgðar á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipana nr. 2001/77/EB og 2003/30/EC, en ekki er efnislegur munur á þessum tilskipunum. Þá eru lagðar til tvennar orðalagsbreytingar á gildandi lögum.     
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa áhrif útgjöld ríkissjóðs.